Ræktó borar í Skagafirðinum

Steinn Leó og Guðmundur Ármann við undirritun samningsins. Ljósmynd/skagafjordur.is

Nýverið var undirritaður samningur milli Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Ræktunarsambands Flóa og Skeiða ehf um borun eftir heitu vatni í Varmahlíð.

Samið var um borun vinnsluholu á heitu vatni við Reykjarhól og er áætlað að borað verði á allt að 700 metra dýpi. Áætlaður kostnaður er um 50 milljónir króna. Jarðborinn Trölli hefur nú þegar hafið borun og gengur verkið samkvæmt áætlun og eru áætluð verklok í lok ágúst samkvæmt verksamningi.

Steinn Leó Sveinsson, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs, segir á heimasíðu Skagafjarðar að mikil vinna hafi verið í kortlagningu á svæðinu undanfarið og voru tilraunarholur boraðar síðasta sumar sem gáfu jákvæða niðurstöður.

Svo skemmtilega vill til að Steinn Leó er fyrrverandi framkvæmdastjóri Ræktunarsambandsins og undirritaði hann samninginn ásamt Guðmundi Ármanni Böðvarssyni, núverandi framkvæmdastjóra.

Fyrri greinFyrsta tap Ægis í sumar
Næsta greinUmferðin gekk vel um helgina