Ráðuneytið styður áfram við Þórbergssetur

Þorbjörg Arnórsdóttir forstöðumaður Þórbergsseturs og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Þorbjörg Arnórsdóttir forstöðumaður Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit samning um áframhaldandi stuðning mennta- og menningarmálaráðuneytis við setrið þegar ráðherra heimsótti setrið í síðustu viku.

„Það er fróðlegt og skemmtilegt að sækja heim Þórbergssetur, ekki aðeins til þess að kynnast ævi og störfum Þórbergs og fá innsýn í hans magnaða hugarheim heldur má hér einnig fræðast um eldri íbúa svæðisins, papana í Klukkugili, landnámsmanninn Hrollaug og víkingabyggðina í Steinadal. Ég hvet landsmenn og annað ferðafólk eindregið til þess heimsækja fjölbreytt söfn og fræðslusetur vítt og breitt um landið, það er frábær leið til þess að upplifa söguna og kynnast landinu okkar betur,“ sagði Lilja við þetta tilefni.

Þórbergssetur er helgað sögu Suðursveitar og lífi og verkum Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar (1888-1974) en hlutverk setursins er að efla rannsóknir og umfjöllun um ævi, störf og ritverk Þórbergs og miðla fræðslu og þekkingu um hann, og sögu og mannlíf í Austur-Skaftafellssýslu, til ferðamanna og almennings. Þá eflir Þórbergssetur önnur fræðastörf sem tengjast söfnun, varðveislu og skráningu menningarminja í Suðursveit og Austur-Skaftafellssýslu.

Fyrri greinElti sjúkrabíl í forgangsakstri
Næsta greinKonan og garðurinn í Hlöðunni