Ráðuneytið fellir úr gildi ákvörðun um flutning barna í Stekkjaskóla

Byrjað er að setja upp færanlegu kennslustofurnar við Stekkjaskóla. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur fellt úr gildi ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar um flutning barns úr Sunnulækjarskóla í nýjan Stekkjaskóla fyrir komandi skólaár.

Jónína Guðmundsdóttir og Halldór Gunnar Jónsson, sendu ráðuneytinu stjórnsýslukæru í febrúar síðastliðnum vegna ákvörðunar sveitarfélagsins um flutning dóttur þeirra úr Sunnulækjarskóla í Stekkjaskóla. Þau töldu að ákvörðun sveitarfélagsins væri ekki í samræmi við stjórnsýslulög, þar sem foreldrum hafði ekki verið tilkynnt um flutninginn fyrr en eftir að ákvörðun um hann var tekin, andmælaréttur foreldra hafi ekki verið virtur og meðalhófsreglu ekki gætt.

Sveitarfélagið taldi að það hefði gefið stjórnvaldsfyrirmæli og gæti tekið ákvörðun um flutninginn einhliða en samkvæmt úrskurði ráðuneytisins stóð ágreiningurinn í málinu um hvort um stjórnvaldsákvörðun væri að ræða. Ráðuneytið túlkaði vafann Jónínu og Halldóri í hag og felldi ákvörðun sveitarfélagsins um flutninginn úr gildi. Mat ráðuneytisins er að sveitarfélagið hafi ekki virt stjórnsýslulög þar sem kveðið er á um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.

„Ákvörðun um flutning barns milli grunnskóla varðar mikilsverða hagsmuni nemenda, réttindi þeirra og skyldur, og er íþyngjandi fyrir þann sem í hlut á,“ segir í úrskurðinum sem vísar einnig í Barnasáttmálann, „sem mælir fyrir um að stjórvöld skuli við ráðstafanir í málum barna setja það sem barni er fyrir bestu í forgang.“

Þungu fargi létt af foreldrum
„Það er þungu fargi af okkur létt og eflaust fleiri foreldrum líka. Þetta ferli hefur tekið hálft ár og búið að vera okkur fjölskyldunni mjög erfitt. Við gleðjumst yfir þessu en erum samt mjög döpur yfir því að sveitarfélagið „okkar“ vandi ekki ákvarðanir sínar betur en raun ber vitni og leggi hag og öryggi barnanna í sveitarfélaginu að veði við ákvörðun sem virðist hafa verið tekin með hálfum hug og án nægilegs undirbúnings,“ sagði Jónína í samtali við sunnlenska.is.

„Ég vil samt taka fram að við viljum auðvitað að grunnskólum í sveitarfélaginu sé fjölgað og við erum ekki á móti skólanum eða starfsfólki hans. Bara því að setja börn inn á svona ótryggt svæði og í ófullnægjandi aðstæður,“ sagði Jónína ennfremur.

Vafamál hvort námsumhverfið sé boðlegt
Þá vekur ráðuneytið athygli á því að það sé vafa undirorpið hvort það námsumhverfi sem börnum verði boðið uppá í Stekkjaskóla sé í takt við lög um grunnskóla þar sem segir að allir nemendur eigi rétt á kennslu í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem taki mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Í reglugerð segir að húsnæði, skólalóð og allur aðbúnaður þurfi að vera þannig að nemendum og starfsfólki sé tryggt öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi sem skapar öryggi og vellíðan.

Kennsla í Stekkjaskóla mun hefjast í haust í bráðabirgðahúsnæði í nýju hverfi sem er í byggingu og beinir ráðuneytið því til Árborgar að taka afstöðu til þess hvort húsnæðið standist kröfur laga, reglugerða og aðalnámsskrár. Ráðuneytið mun fylgja þessu eftir við sveitarfélagið.

Sveitarfélagið biðst velvirðingar
Í tilkynningu á vef Árborgar, sem birtist í gær, biðst sveitarfélagið Árborg velvirðingar á þeirri stöðu sem upp er komin vegna úrskurðarins. Börn sem eru að hefja nám í 1. bekk verða ekki fyrir áhrifum vegna úrskurðarins en foreldrar barna í 2.-4. bekk sem fengu tilkynningu um flutning barns yfir í Stekkjaskóla munu fá bréf frá sveitarfélaginu, þar sem þeim verður gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum og andmælum að, áður en endanleg ákvörðun verður tekin um flutning barns þeirra. Í tilkynningunni segir einnig að engin merki séu um annað en að í haust verði til staðar fullbúið skólahúsnæði Stekkjaskóla sem mætir þeim kröfum sem gerðar eru til slíks húsnæðis.

Svona mun Stekkjaskóli líta út á komandi skólaári. Mynd/Árborg
Fyrri greinTvö töp í röð hjá Ægi
Næsta greinKoppafeiti á Unglingalandsmótinu