Rabbabaraísinn besta sunnlenska afurðin

Rabbabaraísinn frá Kjörís hlaut útnefningu Matarklasa Suðurlands í afurðasamkeppni sem haldin var á Gónhól á Eyrarbakka á Sunnlenskri safnahelgi.

Þar var keppt um bestu sunnlensku afurðina árið 2010 en keppnin mun verða árviss héðan í frá og hefur verið kynnt undir nafninu; Sultað, saftað, maukað og sýrt.

Varla er hægt að hugsa sér sunnlenskari afurð en uppistaðan í ísnum er undanrennuduft frá sunnlenskum bændum sem Kjörís fær frá Mjólkurbúi Flóamanna , rabbabari frá Löngumýri á Skeiðum og svo er ísinn framleiddur með gufunni í Hveragerði.

Upphafið af Rababaraísnum má rekja aftur til ísdagsins sumarið 2009. Þá kom upp sú hugmynd hjá starfsmönnum Kjöríss að gera Rabbabaraís og var hann framleiddur fyrir þennan merkilega dag og rabbabari úr prívatgarði forstjórans notaður til framleiðslunnar. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það , ísinn gerði stormandi lukku og lá þá ljóst fyrir að það þyrfti meira magn til framleiðslunnar en garður forstjórans gaf. Hugmyndin var lögð til hliðar um veturinn.

Þessi verðlaunaís verður síðan til á vormánuðum 2010 þegar rabbabarabændurnir Dorothee Lubecki og Kjartan Ágústsson á Löngumýri og Kjörís í Hveragerði hefja samstarf og gera nokkrar prufur sem kynntar voru síðan á sunnlenskri safnahelgi og vöktu mikla lukku. Áætlanir um framleiðslu og markaðssetningu þessarar frábæru sunnlensku afurðar eru í skoðun en hægt verður að fá ísinn á jólamörkuðum í Gónhól á Eyrarbakka en þar verður opið fyrstu tvær helgarnar á aðventunni.

Fyrri greinNjála lesin í allan dag
Næsta greinSkipt um perur á Ölfusárbrú