Ráðstefnugestir Erasmus+ fengu kynningu á skólamálum

Í gær sóttu Árborg heim hátt í 40 kennarar og sérfræðingar frá Norðurlöndunum og baltnesku löndunum, sem starfa bæði á grunn- og framhaldsskólastigi.

Móttaka og kynning fór fram í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Með í för voru nokkrir Íslendingar sem sóttu ráðstefnu í Reykjavík með erlendu gestunum sem fjallaði um kennarmenntun framtíðarinnar með sérstaka áherslu á upplýsingatækni. Andrés Pétursson, verkefnastjóri Erasmus+ á Íslandi, fór fyrir hópnum.

Eftir setningu Olgu Lísu Garðarsdóttur, skólameistara FSu, var Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri, með almenna kynningu á Sveitarfélaginu Árborg í máli og myndum. Þá kynnti Þórdís H. Ólafsdóttir, fyrrum kennsluráðgjafi í Árborg, aðdraganda, innihald, framkvæmd og stjórnun Erasmus+ verkefnis Árborgar á síðasta skólaári.

Kynningu Þórdísar var fylgt eftir með mörgum skemmtilegum dæmum og lýsingum á starfi grunnskólanna sem þeir Páll Sveinsson, aðstoðarskólastjóri BES, og skólastjórarnir Magnús J. Magnússon, Guðbjartur Ólason og Birgir Edwald sáu um.

Í kjölfarið kynnti Helgi Hermannsson, kennari í FSu, ýmis alþjóðleg verkefni sem skólinn hefur verið að vinna að á undanförnum árum. Eftir kaffi og spjall fóru þau Olga Lísa og Helgi með hópinn í skoðunarferð um skólann.