Ráðist í lagfæringar á íþróttahúsinu á Stokkseyri

Skipt verður um þak og rakaskemmdir lagaðar í íþróttahúsinu á Stokkseyri. Þetta var ákveðið á fundi bæjarráðs Sveitarfélagsins Árborgar í síðustu viku.

Þá verður einnig skoðaður sá möguleiki að byggja við húsið geymslu og gera við gólfið inni í íþróttasalnum.

Samkvæmt Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Sveitarfélagsins Árborgar, hefur það lengi staðið til að skipta um þak á húsinu þar sem það hefur lekið um nokkurt skeið. Sveitarfélagið er hinsvegar ekki eini eigandi hússins og því hefur þurft að semja við hinn eigandann um framkvæmdina, þar sem skipta þarf um allt þakið í einu. Það hefur gengið illa þar sem hann dvelur mikið erlendis.

Stefnt er að því að hefja framkvæmdir um næstu mánaðarmót og að verkið taki um fjórar til fimm vikur. Á meðan á framkvæmdum stendur er stefnt að því að íþróttakennsla skólans fari fram að mestu utan dyra.

Þá verður nákvæm tímasetning á framkvæmdinni ákveðin í samvinnu við ungmennafélagið á staðnum vegna tíma sem eru á þeirra vegum í húsinu.

Viðgerðum á að vera lokið áður en kennsla hefst í húsinu í haust. Áætlaður kostnaður sveitarfélagsins við þakskiptin er um tíu milljónir króna.

Vill frekar fá nýtt hús
Tinna Björg Kristinsdóttir, fimleikaþjálfari með meiru, hefur verið dugleg að vekja athygli á slæmu ástandi hússins, en hún sendi bæjarstjórninni fyrst bréf þess efnis árið 2010. Þrátt fyrir að vera ánægð með að sveitarfélagið ætli að ráðast í lagfæringar á húsinu væri hún til í að forgangsröðunin væri önnur.

„Ég vil fá nýtt hús,“ segir Tinna Björg. Hún segir að veggirnir séu ónýtir, lofthæð lág og salurinn lítill og því sé erfitt að stjórna æfingum í húsinu. Þá þurfi neyðarútgöngu leið við klefana því ef eldur kæmi upp í húsinu myndu þeir sem þar væru ekki komast út. Einnig sé slysahætta á gólfi salarins, en bæjarráð vill kanna möguleika á endurbótum á því.

Tinna hefur hefur haft samband við bæði Guðbjart Hannesson, velferðarráðherra, og Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, vegna þessa máls. Engin svör hafa borist frá Guðbjarti, en Katrín hefur sýnt málinu áhuga. Það hefur Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður, einnig gert.

Fyrri greinSkaftfellingar úr leik
Næsta greinSelfoss og Árborg töpuðu