Ráðist á unga konu við Selfosskirkju

Um klukkan níu í gærkvöldi réðist karlmaður á 19 ára konu sem var á gangi við bifreiðastæði vestan við Selfosskirkju. Maðurinn hafði verið á bak við bifreið og stokkið á konuna gripið í handlegg hennar og reynt að kyssa hana og rífa úr jakka sem hún var í.

Konunni tókst að verjast með því að sparka í manninn og slá til hans. Hann losaði um takið og flúði af vettvangi. Konan tilkynnti atvikið stuttu síðar til lögreglu sem gerði leit að manninum án árangurs.

Árásarmanninum var lýst sem lágvöxnum í góðu líkamlega formi með derhúfu og í dökkri hettupeysu.

Skorað er á alla sem hafa veitt athygli mönnum sem hafa verið á og við þetta svæði og lýsing þessi gengur við að hafa samband við lögreglu í síma 480 1010.

Ef einhver fyrirtæki eða aðrir eru með eftirlitsmyndavélar við Kirkjuveg, Eyraveg og Austurveg eru viðkomandi beðnir að hafa samband.

Konan er ómeidd eftir árásina en mjög brugðið.

Fyrri greinBýður lögfræðiþjónustu á netinu
Næsta greinFjallkonan fékk frumkvöðla-verðlaunin