Ráðist á tölvukerfi Verkfræðistofu Suðurlands

Við náðum að stoppa árásina strax og það varð ekkert tjón,“ segir Páll Bjarnason, framkvæmdastjóri Verkfræðistofu Suðurlands. Brotist var inn í tölvukerfi fyrirtækisins fyrr í mánuðinum en starfsmenn urðu strax varir við hvað var að gerast.

Árásin virðist hafa verið gerð í þeim tilgangi að auka netumferð um tilteknar vefsíður erlendis. Páll segist hafa frétt af því að um líkt leyti hafi fleiri aðilar hérlendis orðið fyrir barðinu á svipuðum árásum og að þær virtust hafa komið erlendis frá.

„Við töpuðum engum gögnum en það tekur smá tíma að ná inn afrituðum gagnagrunni og setja hann aftur upp. Því er þetta tjón sem felst í vinnu sérfræðings í nokkra daga við að endursetja og vakta kerfið til að loka fyrir glufuna sem tölvuþrjótarnir nýttu sér,“ segir Páll.

Verkfræðistofa Suðurlands heldur utan um margvísleg gögn sveitarfélaga á Suðurlandi á borð við skipulags- og byggingarembætti uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps og hefur árásin því valdið töfum í starfsemi viðkomandi embætta.

Fyrri grein„Hann hefði kannski eignast hundrað þúsund fésbókarvini…“
Næsta grein,,Fáum vonandi annað en mosa”