Ráðherraklipping við Litlu kaffistofuna

Ráðherrarnir Sigurður Ingi Jóhannsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir, ásamt Gunnari Þorgeirssyni, formanni Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga klipptu á borða á Suðurlandsveginum við Litlu kaffistofuna í dag og opnuðu þar með formlega Leyndardóma Suðurlands.

Átakið kallast kallast Leyndardómar Suðurlands og stendur það í tíu daga, eða til sunnudagsins 6. apríl. Leyndardómar Suðurlands eru á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga en markmiðið er að kynna sem mest af Suðurlandi og fá sem flesta gesti til að heimsækja Suðurland. Megininntakið í átakinu er Matur – Saga – Menning. Um tvöhundruð viðburðir eru skráðir í leyndardómana í öllum sveitarfélögum á Suðurlandi.

Frítt verður í strætó í boði Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga alla tíu daga leyndardómanna frá Mjódd í Reykjavík um allt Suðurland samkvæmt leiðakerfi Strætó. Sömu sögu er að segja frá Suðurlandi til Reykjavíkur.

Meðal viðburða á næstu dögum má nefna tónleika með Lay Low í Héraðsskólanum á Laugarvatni, afríska matarupplifun á Flúðum, fjölskyldufjör í Hveragerði með Ingó Veðurguð, hænubingó á Selfossi og Eyrarbakka, frítt í sund á Hellu, gómsæta fiskvinnslu í Þorlákshöfn, kartöfluball í Þykkvabæ, jeppaferðir á Eyjafjallajökul, íþróttadag fjölskyldunnar í Vík í Mýrdal og frían þriggja rétta matseðill á Klausturbleikju á Hótel Kirkjubæjarklaustri.