Ráðherra segi af sér

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, segir að umhverfisráðherra eigi að segja af sér vegna dóms Hæstaréttar um aðalskipulag Flóahrepps.

Sigurður Ingi segir að þrátt fyrir að Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, fengi hverja ráðlegginguna á fætur annarri þá hafi hún ekki hlustað á eitt né neitt. Margir hafi bent ráðherranum á að hún hefði ekki lagastoð í að hafna aðalskipulagi Flóahrepps.

„Og þegar niðurstaða héraðsdóms lá fyrir var það mér og fleirum óskiljanlegt af hverju ráðherrann hlustaði ekki á þau góðu ráð. Þess í stað setti ráðherrann undir sig hausinn og má segja ítrekaði lögbrot sitt með því að áfrýja til Hæstaréttar.

Nú hefur æðsti dómstóll landsins talað – ráðherrann braut landslög. Afleiðing af slíkum embættisafglöpum (sem margir reyndu að benda ráðherranum á í tíma ) – afleiðingin hlýtur að verða afsögn ráðherrans. Annað væri staðfesting á því að við höfum ekkert lært af Rannsóknarskýrslu Alþingis. Því vil ég ekki trúa,“ segir Sigurður Ingi á bloggsíðu sinni.