Katrín Jakobsdóttir, ráðherra menningarmála, opnaði í dag vefinn myndasetur.is, sem er ljósmyndavefur Héraðsskjalasafns Árnesinga.
Síðan inniheldur ljósmyndir sem varðveittar eru á safninu og spanna stærstan hluta 20. aldar. Ljósmyndarar eru fjölmargir og myndir koma frá öllum landshornum, en flestar eru myndirnar teknar á Suðurlandi.
Um 45.000 ljósmyndir eru á vefnum, bæði skráðar og óskráðar myndir í vörslu héraðsskjalasafnsins. Skráning ljósmyndanna er samvinnuverkefni starfsmanna héraðsskjalasafnsins og almennings. Því er mikilvægt að allir sem þekkja fólk eða viðburði sem festir hafa verið á filmu og eru á myndasetur.is hafi samband við héraðsskjalasafnið.
Auk upplýsinga um ljósmyndir í vörslu Héraðsskjalasafns Árnesinga er hægt að finna upplýsingar um héraðsskjalasafnið sjálft á vefnum, verksvið þess og aðra starfsemi.