Ráða talmeinafræðing í hlutastarf

Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti á fundi fyrir skömmu tillögu Á-lista um að ráða talmeinafræðing í hlutastarf.

Þjónusta talmeinafræðings hefur ekki staðið til boða í sveitarfélaginu og hafa því foreldrar þurft að keyra með börnin til Reykjavíkur, með ærnum tilkostnaði, til að sækja sér þjónustu talmeinafræðings.

Hólmfríður Árnadóttir, talmeinafræðingur á Selfossi, hefur verið sveitarstjórn til ráðgjafar um þróun starfsins og stefnt er að því að talmeinafræðingur taki til starfa á haustmánuðum. Líklegt er að 40% starfshlutfall nægi til að sinna börnunum.

Í leikskólum og grunnskólum sveitarfélagsins eru samtals 49 börn, bæði úr Ásahreppi og Rangárþingi ytra, sem þurfa á faglegri aðstoð talmeinafræðings að halda. Um helmingur þeirra hefur fengið greiningu hjá talmeinafræðingi, en hinn helmingurinn er annaðhvort í greiningarferli eða í þörf skv. mati sérkennara skólanna.