Ræningjarnir enn á bak við lás og slá

Mennirnir þrír sem frömdu vopnað rán á Selfossi þann 11. desember sl. sitja ennþá á Litla-Hrauni en gæsluvarðhald yfir þeim rann út kl. 16 í dag.

Dómari við Héraðsdóm Suðurlands varð í dag við kröfu lögreglustjórans á Selfossi um að gera tveimur mannanna að afplána eftirstöðvar refsingar vegna fyrri dóma en Fangelsismálastofnun veitti þeim reynslulausn fyrir nokkru. Þeir verða því næstu mánuði á Litla-Hrauni.

Þriðji maðurinn hlaut tveggja ára fangelsisdóm í Hæstarétti í síðustu viku. Hæstiréttur þyngdi þar dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manninum en meðal sakarefna voru fjölmargir þjófnaðir, hilming, fjársvik, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot. Brotin voru öll framin eftir að maðurinn hlaut 12 mánaða fangelsi með dómi árið 2007 fyrir vopnað rán.

Við rannsókn Fossheiðarmálsins kom fram að tveir mannanna höfðu framið annað rán á Selfossi nokkrum dögum áður. Sá sem var rændur varð svo óttasleginn eftir hótanir mannanna að hann þorði ekki að kæra.

Fyrri greinAddi Fannar í Hörpu
Næsta greinRagnar markahæstur í tapleik á Selfossi