Ræninginn stöðvaði lögreglubíl og gaf sig fram

Pilturinn sem framdi vopnað rán í verslun Samkaupa á Selfossi í dag gaf sig fram við lögreglu á Eyrarbakka um kl. 21:00 í kvöld.

Lögreglan hóf þegar ákafa leit að piltinum en hann þekktist af upptökum öryggismyndavéla úr versluninni. Hans var leitað á Selfossi, í Hveragerði, á Stokkseyri og Eyrarbakka, þar sem pilturinn gaf sig fram við lögreglu með því að ganga í veg fyrir lögreglubíl og gefa sig fram.

Pilturinn er aðeins 16 ára gamall og hefur komið áður við sögu lögreglu. Hann hefur verið yfirheyrður og komið í hendur barnaverndaryfirvalda.

Lögreglan fékk boð um yfirstandandi rán í Samkaupum kl. 17:23 í dag. Pilturinn hafði sýnt afgreiðslustúlku hníf sem hann var með og krafist peninga af henni. Stúlkan neitaði en þá greip pilturinn tóbak og fleira og hljóp síðan út.

Fyrri greinVopnað rán á Selfossi
Næsta greinÁkall innikróaðra íbúa í Landeyjum