Ræðumenn sammála um nauðsyn uppbyggingar

Fjölmenni mætti á aðalfund Þroskahjálpar á Suðurlandi sem haldinn var í Tryggvaskála í síðustu viku. Framsögumenn voru Ásta Stefánsdóttir og Arna Ír Gunnarsdóttir sem auk þess að sitja í bæjarstjórn Árborgar.

Þær koma að málefnum fatlaðra í héraðinu, Ásta sem formaður stjórnar Þjónusturáðs og Arna Ír sem félagsráðgjafi í Árnesþingi og sérfræðingur í málaflokknum.

Auk þeirra mættu fjölmargir framámenn sveitarstjórna og frambjóðendur á fundinn, m.a. úr Grímsnes- og Grafningshreppi, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Ölfusi og Árborg. Fram kom á fundinum að misræmi er í því hversu margir eru taldir bíða eftir að fá húsnæði með sólarhringsþjónustu, eða 5 til 15 eftir því hvernig talið er. Engin uppbygging hefur verið í þeim geira í fjölda ára en þrjú ár eru nú liðin síðan sveitarfélögin yfirtóku málaflokkinn. Fundarmenn tóku mjög undir þá kröfu að sunnlensk sveitarfélög yrðu nú að taka höndum saman og ráðast í myndarlega uppbyggingu.

Þegar er hafinn undirbúningur að því að nýtt húsnæði komi í stað herbergjasambýlis að Vallholti 9 sem telst mjög ófullnægjandi. Þar með er horft til þess að í stað þeirra 5 sem búa þar nú verði 6 íbúar þannig að þar með fjölgar búsetuúrræðum um eitt.

Í mati á forgangsröðun verkefna hefur þó verið talið að fyrst af öllu yrði að ráðast í uppbyggingu á algerlega nýju íbúðasambýli fyrir fatlaða fyrir að minnsta kosti 5 íbúa. Til þess að það verði að veruleika þarf samstöðu allra sveitarfélaga á svæðinu á nýju kjörtímabili.

Fyrri greinBjörgvin þriðji á Evrópuleikunum
Næsta greinEyrún Björg: Af hverju framboð?