Rætt um launamál Ástu

Bæjarstjórn Árborgar kom saman til fyrsta fundar á kjörtímabilinu miðvikudaginn 18. júní sl. Á fundinum var kosið í embætti til eins árs og var Kjartan Björnsson kosinn forseti bæjarstjórnar.

Til setu í bæjarráði voru kosin þau Gunnar Egilsson, Sandra Dís Hafþórsdóttir og Eggert Valur Guðmundsson. Áheyrnarfulltrúar í bæjarráði eru Helgi S. Haraldsson og Viðar Helgason.

Bæjarráð hélt sinn fyrsta fund hinn 19. júní og er Gunnar Egilsson formaður þess.

Á fundi bæjarstjórnar var samþykkt að ráða Ástu Stefánsdóttur sem framkvæmdastjóra sveitarfélagsins. Í umræðum um ráðninguna kom fram spurning frá Framsóknarmönnum hvort Ásta hyggðist þiggja laun sem framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi. Benti Helgi Haraldsson á að að þegar Ragnheiður Hergeirsdóttir var sitjandi bæjarfulltrúi og bæjarstjóri, gagnrýndu sjálfstæðismenn það fyrirkomulag. Ásta Stefánsdóttir varð til svara og sagði það hefðbundna leið, og tilgreindi nokkrar ástæður fyrir því.

Einnig kom fram tillaga um að ráðningarsamningur við Ástu yrði að fá staðfestingu bæjarstjórnar en ekki bæjarráðs, en bæjarstjórn kemur ekki saman fyrr en 20. ágúst næst. Var sú tillaga felld af meirihluta D-listans.

Fyrri greinOfurölvi undir stýri á flutningabíl
Næsta greinÁrborg tapaði á Nesinu