Ræktuðu kannabis og tengdu framhjá mæli

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag tvo karlmenn til refsingar fyrir að rækta tuttugu kannabisplöntur og stela til þess rafmagni.

Mennirnir voru dæmdir sameiginlega fyrir að hafa staðið að ræktun kannabisplantna í bílskúr á Selfossi. Lögreglan upprætti ræktunina í júlí í fyrra. Í bílskúrnum voru tuttugu kannabisplöntur sem lögregla gerði upptækar.

Annar mannanna var auk þess sakfelldur fyrir að tengja fram hjá rafmagnsmæli sem mældi rafmagnsnotkun bílskúrnum en þannig hagnýtti hann sér á ólögmætan hátt orkuforða til ræktunarinnar.

Mennirnir voru báðir dæmdir til að greiða 100.000 króna sekt en sá sem tengdi framhjá rafmagnsmælinum var að auki dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Mennirnir játuðu báðir sök fyrir dómi. Þeir eiga að baki sektir vegna brota á ávana- og fíkniefnalöggjöfinni.