Ræktaði kannabis í blokk á Selfossi

Kona á Selfossi var í gær dæmd í 60 daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands fyrir fíkniefna- og umferðarlagabrot. Hún ræktaði kannabis á heimili sínu í fjölbýlishúsi á Selfossi.

Lögreglan á Selfossi stöðvaði konuna þar sem hún ók austur Suðurlandsveg í Ölfusinu undir áhrifum kannabis í maí í fyrra. Í bílnum var hún með 2,23 gr af maríhúana.

Húsleit var gerð hjá konunni á heimili hennar á Selfossi þar sem fundust átta kannabisblöntur og 351,11 gr af maríhúana.

Konunni var gert að sök að hafa ræktað kannabis um nokkurt skeið í sölu- og dreifingarskyni. Ákærða viðurkenndi skýlaust brot sín fyrir dómara en tók fram að hún hafi í upphafi ætlað fíkniefnin til eigin neyslu, en ekki í sölu- og dreifingarskyni, sem síðar hefði orðið raunin. Hún bar að hún hefði verið mikill fíkill á þessum tíma en hefði verið edrú síðan. Þá kvaðst hún sjá eftir broti sínu.

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, taldi hæfilega refsingu konunnar 60 daga fangelsi en að teknu tilliti til hreins sakaferils konunnar þótti rétt að skilorðsbinda refsinguna til tveggja ára.

Konunni var einnig gert að greiða 140 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs auk þess sem hún var svipt ökurétti í eitt ár. Einnig þarf hún að greiða rúmar 256 þúsund krónur í sakarkostnað.

Fyrri greinÁ skilorð fyrir að stela úr ruslinu
Næsta greinHSK í 5. sæti stigakeppninnar