Pure North Recycling fékk Bláskelina

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Börkur Smári Kristinsson, rannsóknar- og þróunarstjóri hjá Pure North og Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrverandi forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Endurvinnslufyrirtækið Pure North Recycling í Hveragerði hlaut í dag Bláskelina, viðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir framúrskarandi lausn í plastmálefnum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhenti Berki Smára Kristinssyni, rannsóknar- og þróunarstjóra hjá Pure North, verðlaunin á málþingi Plastlauss septembers.

Pure North Recycling fæst við endurvinnslu plasts og knýr starfsemi sína með jarðvarma. Fyrirtækið fullnýtir glatorku við bæði þvott og þurrk á hráefninu og dregur þannig úr kolefnisspori endurvinnslunnar um 80%, miðað við sambærilega vinnslu í Evrópu. Pure North Recycling hefur m.a. komið á samstarfi við bændur um að endurvinna heyrúlluplast á Íslandi og gera úr því nýjar vörur, til að mynda girðingarstaura.

Fimm manna dómnefnd skipuð fulltrúum frá Umhverfisstofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtökum iðnaðarins, Plastlausum september og Ungum umhverfissinnum valdi verðlaunahafa úr hópi sautján tilnefndra.

„Við þurfum að efla innlenda endurvinnslu í sem flestum úrgangsflokkum, því það er bæði skynsamlegt að gera það sem næst upprunastað úrgangsins og það skapar viðskiptatækifæri hér heima. Ég óska verðlaunahöfum innilega til hamingju með Bláskelina og megi þeim vegna sem allra best í því að efla innlenda endurvinnslu. Hún er nauðsynlegur þáttur í því að koma á virku hringrásarhagkerfi hér á landi,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Bláskelin er nú veitt í þriðja sinn. Veiting verðlaunanna er í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda í plastmálefnum; Úr viðjum plastsins og er þeim ætlað að vekja athygli á nýsköpun í plastmálefnum og plastlausum lausnum.

Fyrri greinTelur ræktun orkujurta til framleiðslu á lífolíu hagkvæma
Næsta greinVatnasvið Jökulfalls og Hvítár friðlýst gegn orkunýtingu