Prófkjör hjá framsóknarfólki í Suðurkjördæmi

Sigurður Ingi Jóhannsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir eru núverandi alþingismenn Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Ljósmynd/Framsókn

Á kjördæmisþingi Kjördæmissambands Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi síðastliðinn fimmtudag var samþykkt tillaga um að lokað prófkjör verði haldið til að velja á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi fyrir næstu alþingiskosningar.

Stjórn KSFS lagði fram tillöguna um prófkjörið og var hún samþykkt með 78% atkvæða. Kosið verður um sex efstu sæti listans í Suðurkjördæmi samkvæmt reglum flokksins þar um. Kjördagur verður laugardagurinn 10. apríl 2021 og rétt til atkvæðagreiðslu eiga flokksbundnir framsóknarmenn sem eiga lögheimili í kjördæminu 30 dögum fyrir prófkjörsdag.

Kjördæmisþingið var haldið í fjarfundi en skráðir fulltrúar voru rúmlega eitthundrað. Þingið fór vel fram við óvenjulegar aðstæður en þetta er í fyrsta sinn sem þing KSFS er haldið í fjarfundi auk þess sem kosningar voru rafrænar.

Á þinginu var jafnframt samþykkt tillaga frá Jóni Gautasyni, formanni Guðna, félags ungra Framsóknarmanna í Árnes- og Rangárvallasýslu, að leitað yrði leiða til að hægt verði að kjósa með rafrænum hætti í prófkjörinu.

Björn Harðarson var endurkjörinn fomaður KSFS á þinginu en auku hans skipa stjórn þau Magnea Herborg Björnsdóttir, Gunnlaugur Hreinsson, Gissur Jónsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Kristján Sigurður Guðnason og Guðrún Sigríður Briem.

Í kjörstjórn KSFS fyrir prófkjörið voru kjörin Magnea Herborg Björnsdóttir formaður, Karl Pálmason, Reynir Arnarson, Sigrún Þórarinsdóttir, Friðrik Björnsson, Gissur Jónsson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.

Fyrri greinMeirihluti íbúa Sólvalla smitaðir
Næsta greinBirna Guðrún ráðin leikskólastjóri