Prjónahúfur með endurskinsþræði

Icewear í Garðabæ sem rekur fataframleiðslu í Vík í Mýrdal hefur sett á markað prjónahúfur með endurskinsþræði, sem eru nýjung hérlendis.

Húfurnar eru hannaðar af Icewear en framleiddar hjá samstarfsfyrirtæki þess í Kína. Endurskinið frá húfunum gerir gangandi vegfarendur mun sýnilegri í skammdegismyrkrinu og eykur því öryggi þeirra í umferðinni.

Engin hefðbundin endurskinsmerki eru á húfunum. Endurskinið kemur frá þræði sem er húðaður með öflugu endurskinsefni og prjónaður með hefðbundnu garni. Þráðurinn er grannur og illsjáanlegur. Hann fellur vel að litum og munstri húfunnar og endurkastar frá sér ljósi sem á hana fellur þannig að húfan virðist glitra og verður vel sýnileg í myrkri.

Vegna endurskinsins hefur húfan fengið nafnið Glitra. Hún fæst í verslunum Icewear, meðal annars í Vík í Mýrdal.

Hjá Icewear, sem stofnað var árið 1972, eru um 85 starfsmenn. Þar af starfa 15 manns við fataframleiðslu fyrirtækisins í Vík í Mýrdal.

Fyrri greinViðar skrifaði undir þriggja ára samning
Næsta greinÓli setti ellefu HSK met