Prestembættin í Vík og á Klaustri sameinuð

Sameina á prestsembættin í Vík í Mýrdal og á Kirkjubæjarklaustri og minnka starfshlutfall. Þetta verður meðal tillagna á næsta kirkjuþingi í október.

Í stað tveggja fullra stöðugilda verði þannig gert ráð fyrir 150 prósent stöðu. Heimamenn hafa efasemdir um breytinguna.

„Það segir sig sjálft að það gengur ekki fyrir byggðarlög í varnarbaráttu að lækkað sé starfshlutfall í embætti, sem krefst háskólamenntunar, sem er partur af okkar baráttu að fá meira til okkar til að fá meiri fjölbreytileika í atvinnulífið,“ segir Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps, í samtali við Sunnlenska.

Hún segir landsvæðið líka það stórt að ekki sé vinnandi vegur að sameina embættin. „Vegalengdirnar eru bara of miklar. Að það sé gert ráð fyrir því að prestur sé jafnvel í einnar og hálfrar klukkustundar ferðafjarlægð frá íbúum, þetta eru ekki skilaboðin sem okkur vantar inn í samfélagið okkar,“ segir Eygló.

„Okkur vantar frekar aðstoð við að efla samfélagið og bjóða fjölbreytt atvinnutækifæri.“

Fyrri greinTap í lokaleiknum
Næsta greinÞorvarður hættir hjá SASS