Prentsögusetrið verður hýst á Eyrarbakka

Síðastliðinn laugardag var haldinn stofnfundur Prentsöguseturs, sem verða mun til húsa á Eyrarbakka.

Fundurinn var haldinn í fyrirlestrarsal Landsbókasafns í Þjóðarbókhlöðunni og sátu hann fjörutíu manns.

Með stofnun Prentsöguseturs er stigið skref sem lengi hefur verið í undirbúningi. Umræða um Prentminjasafn hefur lengi verið í gangi, enda fáar stéttir sem gengið hafa í gegnum jafn róttækar breytingar í tækni og vinnubrögðum og bókagerðarfólk. Tilfinningin fyrir nauðsyn þess að varðveita söguna hefur, ekki síst þess vegna, verið rík innan stéttarinnar.

Á stofnfundinum fluttu þau Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur, Bjarni Harðarson bóksali og kaffivert og Björn G. Björnsson fræðandi og skemmtileg erindi; Ragnheiður um uppgröft að Hólum í Hjaltadal, þar sem prenthús staðarins var m.a. grafið upp, Bjarni um bókabæina austanfjalls, en Prentsögusetur mun tengjast því verkefni og Björn fjallaði um möguleika í skipulagningu safna. Oddgeir Þór Gunnarsson, varaformaður Félags bókagerðarmanna, flutti stofnfundinum kveðju félagsins og lagði fram rausnarlegt fjárframlag til að auðvelda setrinu fyrstu skrefin. Einnig flutti Sigurður B. Halldórsson, lögfræðingur Samtaka iðnaðarins, fundinum kveðju samtakanna.

Í markmiðslýsingu og framtíðarsýn Prentsöguseturs segir m.a. að markmið Prentsöguseturs sé að stuðla að söfnun, skráningu og varðveislu minja sem tengjast prentsmiðjurekstri á Íslandi frá upphafi, með megináherslu á þróun tækjabúnaðar, efnisnotkunar og vinnubragða. Einnig að stuðla að rannsóknum, sýningum og kynningum á því sem setrið hefur yfir að ráða þessu tengt og því rannsóknarstarfi sem fram fer hverju sinni.

Markmiðinu um söfnun skal náð með öflun heimilda, ritaðra eða munnlegra, tækja og verkfæra, myndefnis og annars sem tengist prentiðnaði á Íslandi og tök eru á að nálgast. Setrið skal sjá um skráningu og varðveislu, annað hvort sjálft eða með sérstökum samningum við önnur söfn, setur eða varðveislustofnanir.

Markmiðinu um rannsóknir skal náð með markvissri söfnun og úrvinnslu heimilda og rannsókna á því sem til er í þeim safnakosti sem fyrir er á landinu. Setrið skal kynna niðurstöður rannsókna á þess vegum fyrir almenningi með sýningum, viðburðum og útgáfustarfi.

Leitast verður við að nota í kynningar- og sýningarstarfi þá nýjustu tækni sem gerir gestum og gangandi mögulegt að fá sem skýrasta mynd af tækniþróun og sögu prentiðnaðar á Íslandi.

Prentsögusetur hyggst ná þessum markmiðum sínum með eigin starfi og faglegu samstarfi við sérfræðinga og áhugafólk, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga, ásamt því að koma á samstarfverkefnum innanlands og utan. Prentsögusetrið leggur áherslu á að opna dyr sínar fyrir færustu vísindamenn og einnig fyrir áhugafólki um söguna. Prentsögusetri er ætlað að miðla upplýsingum um rannsóknir sínar til almennings og fræðasamfélagsins eftir því sem við á hverju sinni.

Kosið var í stjórn og varastjórn Prentsöguseturs á stofnfundinum; í aðalstjórn þau Haukur Már Haraldsson, Heimir Br. Jóhannsson, Svanur Jóhannesson, Þóra Elfa Björnsson og Þórleifur V. Friðriksson, en þau Jón Arnar Sandholt og Svanhvít Stella Ólafsdóttir í varastjórn. Stjórnin mun skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi.

Fyrri greinJötunn vélar gáfu iPad á göngudeildinar
Næsta greinVarað við stormi á miðvikudag