Pósturinn veitir héraðsblöðum „rekstrarlegt náðarhögg“

Blaðamannafélag Íslands gagnrýnir Íslandspóst harðlega vegna fyrirhugaðrar hækkunar fyrirtækisins á póstburðargjöldum.

Hækkunin mun koma mjög illa við fréttablöð á landsbyggðinni og í sumum tilfellum höggva nærri starfsgrundvelli þeirra.

Í ályktun sem samþykkt var á stjórnarfundi Blaðamannafélagsins Íslands í dag kemur fram að Íslandspóstur er einokunarfyrirtæki í eigu ríkisins og hafi þannig örlög viðskiptavina sinna í hendi sér.

Ályktunin í heild:

„Stjórn Blaðamannafélags Íslands lýsir áhyggjum sínum af fyrirhugaðri hækkun Íslandspósts á póstburðargjöldum. Ljóst er að hækkunin mun koma sér mjög illa fyrir fréttablöð á landsbyggðinni og í sumum tilfellum höggva nærri starfsgrundvelli þeirra. Íslandspóstur er einokunarfélag í eigu ríkisins og hefur þannig örlög þessara viðskiptavina sinna í hendi sér. Það er því furðulegt að hækkun af þessari stærðargráðu sé skellt á héraðsfréttablöðin án nokkurs fyrirvara eða án nokkurra viðræðna. Héraðsfréttablöð eru mikilvæg upplýsingaveita í hinum dreifðu byggðum landsins. Þau njóta engra styrkja eða aðstoðar sem slík en nú virðist einokunarfyrirtæki ríkisins ætla að veita þeim rekstrarlegt náðarhögg. Stjórn Blaðamannafélags Íslands telur þetta aðför að héraðsfréttablöðum landsins.“

Fyrri greinSkólamörk lokað að hluta
Næsta greinBetra tap vandfundið