Póstafgreiðslunni í Hveragerði lokað

Sunnumörk í Hveragerði. Mynd úr safni.

Póstafgreiðslunni í Hveragerði verður lokað á næstu misserum og segir Pósturinn í tilkynningu að verið sé að þróa þjónustuna í takt við breyttar þarfir og kröfur neytenda.

„Dregið hefur úr eftirspurn eftir afgreiðsluþjónustu pósthúsa. Þar af leiðandi er lagt upp úr að þróa annars konar lausnir. Okkar ánægðustu viðskiptavinir eru þeir sem nota póstbox auk þess sem í dag er hægt að póstleggja pakka í póstbox. Flest póstboxin eru aðgengileg allan sólarhringinn og eru einföld í notkun,“ segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins.

Póstafgreiðslunni í Sunnumörk verður því lokað, ásamt sex öðrum póstafgreiðslum á landsbyggðinni, en samspil póstboxaþjónustu, póstbílaþjónustu, bréfberaþjónustu og landpóstaþjónustu mun sinna þjónustuhlutverki Póstsins vel og fullkomlega í samræmi við lög og reglugerðir sem um starfsemina gilda, segir í tilkynningu Póstsins.

 

 

Fyrri greinVitleysingar á sviðinu í Árnesi
Næsta greinMisstigu sig á heimavelli