Pólskur heimilismatur slær í gegn á Árhúsum

Gestrisin Soňa Domoráková, Wiktoria Kowalska, Szymon Machna, Svava Ola Stefánsdóttir og Arnar Freyr Ólafsson taka vel á móti gestum Árhúsa. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Á meðan veitingahúsin keppast við að bjóða upp á jólahlaðborð þessa dagana er athyglisverð nýjung í boði á Árhús Restaurant á Hellu. Þar hefur pólskur heimilismatur verið á matseðlinum síðustu tvær helgar og hann hefur svo sannarlega slegið í gegn.

„Viðbrögðin hafa ekki staðið á sér, hér hefur verið nánast uppbókað hjá okkur síðustu helgar og við erum farin að bjóða upp á pólska matseðilinn á virkum dögum líka. Þetta átti að vera tímabundið en við munum örugglega halda áfram með þetta,“ sagði Svava Ola Stefánsdóttir, sem stýrir eldhúsinu á Árhúsum, í samtali við sunnlenska.is. „Hingað hefur verið að koma fólk alla leið frá Borgarnesi og af Reykjanesinu, því þetta er ekki matur sem er á borðum Pólverja á Íslandi á hverjum degi,“ bætir hún við.

Það kennir ýmssa grasa á matseðlinum og sumt er nokkuð framandi fyrir Íslendinga, en Ola segir að þeir séu spenntir fyrir nýja matseðlinum og hafi farið saddir og ánægðir heim.

Meðal annars er boðið upp á sýrða agúrku súpu, fylltar kartöflubollur með kjötfyllingu og steiktri puru, nautarúllu, svínaskanka og súrkál, heimagerðan ís og auðvitað pierogi, sem eru gómsætir pólskir dömplingar, fylltir með kotasælu, kartöflum, beikoni og lauk. Blaðamaður fékk einmitt að bragða á þessum þjóðarrétti sem mörgum Pólverjum finnst ómissandi að fá á jólunum – og varð ekki svikinn.

„Kjötréttir eru algengir í pólskri matargerð og þá helst svína- og nautakjöt. Margir réttir sem við bjóðum uppá kalla á talsverðan undirbúning og þess vegna er þetta ekki eitthvað sem fólk hefur fyrir því að elda á hverjum degi,“ bætir Ola við, en á Árhúsum eru hæg heimatökin, þar sem allir starfsmennirnir í eldhúsinu eru pólskir. „Við erum mjög ánægð með þetta og leggjum metnað okkar í matinn, enda erum við stolt af því að geta boðið upp á þennan matseðil,“ sagði Ola að lokum.

Pólski Salt Bae! Szymon saltar svínaskanka með tilþrifum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Pönnukökur Wiktoria steikir fylltar pönnukökur sem eru bornar fram með rauðrófusúpunni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Pierogi Pólsku dömplingarnir unnu ljúflega niður eftir að þessi mynd var tekin. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Herramanns matur Svínaskanki, borinn fram með súrkáli, kartöflum, piparrót, sinnepi og heimabökuðu brauði. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinHeiða Ösp ráðin sviðsstjóri fjölskyldusviðs
Næsta greinMótmælir harðlega mögulegum niðurskurði á Sogni