Plokkað um allt land um helgina

Ljósmynd/Mummi Lú

Stóri plokkdagurinn verður haldinn í sjöunda sinn næstkomandi sunnudag. Það er Rótarýhreyfingin á Íslandi sem skipuleggur daginn með aðstoð Landsvirkjunar og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og Guðlaugur Þór Þórðar­son, Umhverfis-, auðlinda- og orkumálaráðherra, munu setja Stóra plokkdaginn formlega klukkan 10:00 í Grafarvogi. Langflest sveitarfélög landsins taka þátt í verkefninu, þá nýtir fjöldi fyrirtækja daginn og dagana í kring til að taka til hendinni og sama á við um hverfa- og félagasamtök ýmiskonar.

Í ár stefnir í algjöra metþátttöku enda veðurguðirnir sérstaklega hliðhollir plokkinu.

Á morgun, laugardag, verður plokkað frá klukkan 10 á Laugarvatni. Planet Laugarvatn og Eldaskálinn bjóða upp á veitingar, poka, plokkur og hanska.

Á sunnudaginn munu svo Rótarýfélagar á Selfossi plokka vestast á Suðurhólum á milli kl. 13 og 15 en hist verður við Háheiði 2.

Fleiri plokkviðburðir eru að bætast við og er hægt að fylgjast með á Facebook síðunni Plokk á Íslandi.

Fyrri greinGrýluvöllur meðal flottustu knattspyrnuvalla landsins
Næsta greinDívustælar og Stelpurokk Jórukórsins á Sviðinu