Píratar í Árborg íhuga framboð

Stefnt er að stofnun félags Pírata í Árborg með von um að bjóða fram lista í komandi sveitastjórnarkosningum. Stofnfundur Pírata í Árborg mun fara fram í Selinu á íþróttavellinum við Engjaveg á Selfossi næstkomandi laugardag kl. 16.

Hugmyndafræði Pírata byggir á auknu gagnsæi, upplýsingarfrelsi og borgararéttindum; hugmyndafræði sem stofnendur Pírata í Árborg hafa fundið hljómgrunn í sínu sveitarfélagi. Samkvæmt skoðanakönnunum hafa Píratar góða möguleika í komandi kosningum og líta stofnfélagar á það sem skýrt og klárt kall fólksins sem ekki verður skorast undan.

„Vaxandi samfélagi og aukinni félagslegri þróun þurfa að fylgja breytingar. Breytingar sem krefjast uppstokkunar á kerfisskipulagi. Aðlögunar að auknum helbrigðis- og geðvandamálum. Aðlögun að aukinni upplýsingamiðlun og aukins gagnsæis í stað baktjaldaleikja,“ segir Daníel Gunnarsson, einn stofnfélaga Pírata í Árborg, PíÁ.

„Áhugafólk um nýjar nálganir og aðferðir sem geta bætt sveitafélagið okkar er hvatt til að mæta, þiggja kaffisopa og taka þátt í stofnun félagsins. Í kjölfar stofnfundar hefst svo málefnastarf og stefnumótun þar sem öllum er velkomin þátttaka. Slíkt verður auglýst síðar,“ segir Daníel.

Stofnuð hefur verið facebook síða undir nafninu „Píratar í Árborg“ þar sem áhugasamir geta tjáð sig og fylgst með starfinu.