Píratar bjóða fram í Árborg

Aðildarfélag Pírata í Árborg var stofnað síðastliðinn laugardag með það í huga að bjóða fram til bæjarstjórnar í vor.

Kosið var í stjórn til bráðabirgða og samþykkt að stefna til aðalfundar eigi síðar en í byrjun apríl þar sem lög verða samþykkt og endanleg stjórn félagsins kosin. Gerður hefur verið grundvöllur til umræðu á facebookhópnum „Okkar Árborg“ til að auka skilvirkni í komandi kosningum.

Í tilkynningu frá Pírötum í Árborg (PÍÁ) segir að málefnavinna sé þegar farin af stað og hugmyndavinnan komin í gang um stefnumálin sem ætla að leggja áherslu á.

„Meginstefna Pírata verður þó alltaf í grunninn opin og gagnsæ stjórnsýsla þar sem íbúalýðræði skipar stóran sess í gegnum netmiðla. Íbúum verður gefinn kostur að taka þátt í því sem er að gerast í málefnum sveitarfélagsins og íbúafundir verða með tímanum virkur þáttur í starfi bæjarstjórnar Árborgar, nái stefna okkar fram að ganga,“ segir í tilkynningu frá PÍÁ.

„Málefni munu fá meiri umfjöllun vegna gagnsæis og ýta undir meðvitund íbúa um hvernig stjórn sveitarfélagsins starfar. Sérhagsmunagæsla mun hverfa úr stjórnmálum. Gagnsæi er það eina sem allir sem eru við stjórn óttast vegna þess að þar er eitthvað falið sem þolir ekki dagsljósið. Eftirfylgni er gríðarlega mikilvægt atriði og sýnir virkni í gagnrýni á þá sem eru við stjórn hverju sinni,“ segir ennfremur í tilkynningunni frá PÍÁ.

Fyrri greinEndurvinnur slóg til útflutnings
Næsta greinSunnlenski sveitadagurinn verður haldinn 3. maí