Piltarnir grunaðir um yfir 80 innbrot

Innbrotsþjófarnir sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald í síðustu viku vegna tuga innbrota í sumarbústaði í Árnessýslu hafa einnig verið stórtækir á Vesturlandi.

Piltanir eru fimmtán til átján ára og eru þrír þeirra í gæsluvarðhaldi sá yngsti er vistaður á Stuðlum. Fjórmenningarnir voru handteknir í síðustu viku eftir að hafa reynt að brjótast inn í þjónustumiðstöðina á Þingvöllum. Tilkynningar til lögreglunnar á Selfossi vegna innbrota sem piltarnir eru grunaðir um eru nú um fimmtíu talsins og gæti þeim enn fjölgað.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að þrír úr hópnum hafi verið handteknir eftir innbrotahrinu í Borgarfirði í fyrri hluta maí. Þar eru þeir grunaðir um 25 innbrot. Heildarfjöldi innbrotanna sem þeir eru grunaðir um er því orðinn á níunda tug.

Mennirnir neita að hafa komið nærri brotunum í Borgarfirði en þeir hafa gengist við nokkrum innbrotum í Árnessýslu.

Í samtali við Fréttablaðið segir Þorsteinn Jónsson, lögreglumaður í Borgarnesi, nú horfa upp á alveg nýja tegund af glæpamönnum. „Þessir menn nota vettlinga og skóhlífar til að finnast síður og virðast vera mjög forhertir þrátt fyrir ungan aldur,“ segir Þorsteinn og nefnir sem dæmi að lögregla hafi stöðvað mennina við reglubundið eftirlit af því að þeir hafi þótt grunsamlegir, en leyft þeim að halda áfram för. Örfáum mínútum síðar, um leið og þeir hurfu sjónum lögreglu, hafi þeir hins vegar brotist inn.

Fyrri greinHrunamenn auglýsa eftir sveitarstjóra
Næsta greinT-listinn sterkari en tapaði samt