Pétur ráðinn slökkviliðsstjóri

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Brunavarnir Árnessýslu hafa ráðið Pétur Pétursson sem slökkviliðsstjóra, úr hópi sjö umsækjenda. Héraðsnefnd Árnesinga og Kristján Einarsson, fyrrverandi slökkviliðsstjóri, hafa náð samkomulagi um starfslok Kristjáns.

Í fréttatilkynningu frá stjórn BÁ er Kristjáni þakkað fyrir vel unnin störf fyrir Brunavarnir Árnessýslu þar sem hann gegndi stöðu slökkviliðsstjóra frá árinu 1994. Jafnframt er Kristjáni þakkað fyrir óeigingjarnt framlag hans við eldvarnir og brunamál í Árnessýslu og ekki síst hans þátt í því verkefni að sameina slökkviliðin í þeim átta sveitarfélögum sem nú standa að Brunavörnum Árnessýslu í eitt öflugt og vel skipulagt lið.

Nýi slökkviliðsstjórinn, Hvergerðingurinn Pétur Pétursson, var ráðinn úr hópi sjö umsækjenda. Auk menntunar sem slökkviliðs-, sjúkraflutninga- og eldvarnaeftirlistmaður er Pétur lærður kafari og garðyrkjufræðingur og leggur nú stund á nám í viðskiptafræði. Hann starfaði áður sem aðstoðarslökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu og sinnti friðargæslu í Afganistan eitt ár.

Staða aðstoðarslökkviliðsstjóra verður auglýst laus til umsóknar á næstunni.

Fyrri greinDagbók lögreglu: Tvö útköll vegna heimilisófriðar
Næsta greinNýr plöntusjúkdómur greindist á Suðurlandi