Peppuð fyrir ráðstefnu ungs fólks

Embla Líf Hallsdóttir, formaður Ungmennaráðs UMFÍ. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er ótrúlega peppuð og spennt fyrir helginni, sérstaklega að sjá þátttakendur kynnast öðrum ráðstefnugestum, fara út fyrir þægindarammann, hlusta á skoðanir annarra og mynda sér sjálfstæðar skoðanir,“ segir Embla Líf Hallsdóttir, formaður Ungmennaráðs UMFÍ.

Hún og ráðið er í dag á leið til Laugarvatns og standa þar fyrir ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði alla helgina. Ráðstefnan hefur verið haldin árlega frá árinu 2009 og er ætluð þátttakendum 16–25 ára. Ráðstefnan hefur alla jafna staðið yfir í þrjá daga. Hún var hins vegar aðeins einn dag í Reykjavík árið 2020 og var frestað í fyrra. Yfirskrift ráðstefnunnar nú er: Láttu drauminn rætast!

Embla segist afar spennt fyrir því að geta loks haldið þriggja daga ungmennaráðstefnu eins og áður þar sem þátttakendur fái tækifæri til að læra ýmislegt nýtt og gagnlegt sem nýtist í daglegu lífi.

Magnaður fróðleikur og uppörvun
Ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði leggur áherslu á að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks í leik og starfi. Þar er lögð áhersla á að einstaklingar geti styrkt sjálfsmynd sína og tekið upplýstar ákvarðanir um eigið líf og lífsstíl. Engar skyldur hvíla á þátttakendum og ekki heldur nauðsynlegt að vera í ungmennaráði. Markmiðið er að gleðja sig og aðra og taka þátt. Þátttakendur fá ýmis verkfæri og þjálfun til þess að bæta líf sitt og hafa aukin áhrif á umhverfi sitt.

Dagskráin er með afar fjölbreyttu sniði. Hellings hópefli og samvera, kynningar með mögnuðum fróðleik, uppörvandi og hvetjandi málstofur, varðeldur og allskonar fræðandi skemmtilegheit. Aðalstyrktaraðili ráðstefnunnar eru Erasmus+

Ráðstefnan hefst í dag þegar þátttakendur koma á Laugarvatn en þeir munu dvelja í gamla Héraðsskólanum. Þegar þátttakendur hafa komið sér fyrir heldur Anna Steinsen frá Kvan fyrirlestur um einkenni jákvæðra og neikvæðra leiðtoga. Síðan verður farið í hópefli og ýmsa leiki.

Ljósmynd/UMFÍ

Pepp og ungt fólk af erlendum uppruna
Ráðstefnan verður sett formlega klukkan 10:00 á morgun, laugardag. Eftir setninguna mun Bjartur Guðmundsson, leikari og yfirpeppari, flytja erindi um tilfinningar og hvernig þær geta haft áhrif á athafnir fólks. Hann kennir m.a. aðferðir sem gagnast til að bæta daglega líðan, auka sjálfsöryggi og margt fleira sem hjálpar fólki.

Á eftir erindi Bjarts eru þrjár málstofur um framkomu og samskipti, stóra drauma og þátttöku. Þar mun m.a. Sema Erla Serdar, aðjúnkt í tómstunda- og félagsmálafræðum við Háskóla Íslands, fá fólk til að velta því fyrir sér hvernig hægt er að stuðla að aukinni þátttöku ungmenna af erlendum uppruna í íþróttastarfi, hvernig bregðast eigi við fordómum og fleira.

Á sunnudag er stefnumót þátttakenda við stjórnmálafólk og stjórnendur fyrirtækja. Það er gert á jafningjagrundvelli og hugmyndin að gestirnir gefi ungmennunum ýmis góð og gagnleg ráð. Á sama tíma fá gestirnir í veganesti að heyra raddir og skoðanir ungmenna.

Meiri upplýsingar um ráðstefnuna á vefsíðu UMFÍ

Fyrri greinBjörgunarsveitir fundu áttavillta göngukonu
Næsta grein„Þetta eru jólin fyrir okkur“