Penninn fær lóð í Vík

Séð yfir Vík í Mýrdal í austur af Reynisfjalli. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þrettán umsóknir bárust um verslunar- og þjónustulóð að Smiðjuvegi 7 í Vík. Sveitarstjórn úthlutaði lóðinni í síðustu viku og kom hún í hlut Pennans ehf.

Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, segir ánægulegt hversu mikill áhugi var á lóðinni og það sé styrkleikamerki fyrir svæðið að fjárfestar vilji koma að uppbyggingu í Vík.

„Á Smiðjuvegi 7 verður um að ræða uppbyggingu á verslun og fjölbreyttri þjónustu, meðal annars bókabúð með ritföng og gjafavöru, bókasafni, skrifstofum og heilsugæslu, sem mun verða góð viðbót fyrir íbúa svæðisins,“ sagði Einar í samtali við sunnlenska.is.

Í ljósi fjölda umsókna og þessa mikla áhuga á lóðinni ákvað sveitarstjórn einnig að hraða eins og kostur er gerð nýs deiliskipulags á reitnum, þar sem gert verður ráð fyrir að minnsta kosti fimm verslunar- og þjónustulóðum til viðbótar.

„Það er mikilvægur liður í því að styðja við mikla íbúafjölgun á svæðinu að auka aðgengi að fjölbreyttri þjónustu. Það eru spennandi verkefni framundan að vinna áfram að skipulagsmálum svo að við getum haldið áfram að vaxa,“ bætti Einar við.

Fyrri greinÍþróttaskemma í Hveragerði
Næsta greinVottanir tryggja faglegt stjórnkerfi og betri vörur