Pennar á lofti í Stekkjaskóla

Ljósmynd/Árborg

Í gær undirrituðu ÞG Verk ehf og Fasteignafélag Árborgar slf samning um hönnun og byggingu á 2. áfanga Stekkjaskóla á Selfossi.

Verkefnið er alútboð og skiptist í fullnaðarhönnun og byggingu 2. áfanga skólans. ÞG verk átti eina tilboðið í verkið og hljóðaði það upp á tæpa 2,6 milljarða króna. Tilboðið var 3,4 prósentum yfir kostnaðaráætlun sveitarfélagsins, sem var rúmlega 2,5 milljarðar króna.

Annar áfangi byggist suð-vestanmegin við 1. áfanga og telur um 3.800 m2 að stærð en heildar gólfflötur skólabyggingarinnar er um 11.000 m2. Framkvæmdir við 2. áfanga eru þegar hafnar en stefnt er að því að taka 1. áfanga skólabyggingarinnar í notkun í upphafi árs 2023. Framkvæmdum við annan áfanga á að vera lokið þann 5. júlí 2024.

Ljósmynd/Árborg
Fyrri greinEldur í skíðaskálanum í Hveradölum
Næsta greinÍBV vann Suðurlandsslaginn