Par sakfellt fyrir þjófnað

Rúmlega tvítugur karlmaður og 25 ára gömul kona á Selfossi voru dæmd fyrir þjófnað og fleiri afbrot í Héraðsdómi Suðurlands í dag.

Maðurinn var ákærður fyrir innbrot í húsnæði sjúkraflutningamanna við lögreglustöðina á Selfossi þar sem hann stal rafhlöðum, vasaljósi og töskum. Þá var hann einnig ákærður fyrir vörslu fíkniefna sem fannst í bíl hans.

Saman var parið ákært fyrir innbrot í verslun N1 í Hrísmýri á Selfossi þar sem þau stálu rúmum 120 þúsund krónum úr afgreiðslukassa. Auk þess söfnuðu þau saman ýmsum vörum úr versluninni í þeim tilgangi að hafa á brott með sér en skildu svo eftir í versluninni.

Maðurinn á nokkurn sakaferil að baki og var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, þar af tvo mánuði skilorðsbundið en konan í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Fólkið játaði brot sín greiðlega fyrir dómi. Þau eru bæði hætt fíkniefnaneyslu og hafa hvorki komist í kast við lögin né neytt fíkniefna allt frá því að þau frömdu brot sín fyrir rúmu einu ári síðan.