Pálmatré byggir við Kerhólsskóla

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hefur tekið tilboði Pálmatrés ehf. upp á rúmar 117 milljónir króna í annan áfanga viðbyggingar við Kerhólsskóla.

Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á rúmar 165 milljónir. Pálmatré átti lægsta tilboðið í verkið en næst kom Vörðufell með 118,1 milljón. Alls buðu sex aðilar í verkefnið. Hæsta tilboðið kom frá Eykt hf. og hljóðaði upp á 141,4 milljónir.

Ísetning glugga var sá verkþáttur sem munaði mestu um í öllum tilboðunum að sögn Ingibjargar Harðardóttur, sveitarstjóra sveitarfélagsins.

Fyrsta skóflustunga að verkinu verður tekin 2. maí, kl. 11, og munu öll börn leik- og grunnskólans hjálpast að við að taka hana. Segir Ingibjörg að keyptar verði 56 skóflur til verksins.