Páll Valur leiðir Bjarta framtíð

Páll Valur Björnsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Grindavík, mun leiða lista Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi en listi efstu manna var samþykktur í síðustu viku.

Páll hætti í bæjarstjórn Grindavíkur í gær og tilkynnti félögum sínum um áform sín um að bjóða sig fram til Alþingis. „Ég lét til leiðast þegar eftir þessu var leitað. Ég heillaðist mjög af þessari hugmyndafræði og þessu nýja afli,“ sagði Páll Valur í samtali við Sunnlenska fréttablaðið.

Í öðru sæti listans verður Guðlaug Elísabet Finnsdóttir, kennari í Reykjavík, Heimir Eyvindarson, kennari í Hveragerði er í þriðja sæti, og Guðfinna Gunnarsdóttir, kennari á Selfossi í því fjórða. Fjörutíu manna stjórn Bjartrar framtíðar samþykkti skipan í efstu sæti lista flokksins um land allt á fundi sínum.

Fyrri grein„Jólin alls staðar“ í Selfosskirkju
Næsta greinKomu færandi hendi til Thelmu Dísar