Páll Valur leiðir lista Bjartrar framtíðar

Páll Valur Björnsson, kennari og alþingismaður, í Grindavík mun leiða lista Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum.

Hann var einnig oddviti listans í síðustu alþingiskosningum en BF fékk þá einn þingmann í kjördæminu.

Stjórn Bjartrar framtíðar samþykkti í kvöld sex efstu frambjóðendur á framboðslistum í öllum kjördæmum á fjölmennum fundi.

Í öðru sæti listans er Þórunn Pétursdóttir, landgræðsluvistfræðingur í Hafnarfirði og þriðja sætið skipar Lovísa Hafsteinsdóttir, náms- og starfsráðgjafi í Reykjanesbæ.

Þar á eftir koma Jasmina Crnac, stjórnmálafræðinemi í Reykjanesbæ, Eyrún Björg Magnúsdóttir, framhaldsskólakennari og stjórnsýslufræðingur á Selfossi og Bjarni Benediktsson, framkvæmdastjóri í Reykjavík.