Listamaðurinn Páll Óskar var fenginn til að koma óvænt á svið í íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi á jólasamveru í gær.
Markmiðið var ekki einungis að koma fram og gleðja heldur einnig að heiðra listahópinn í Vallaskóla sem sigraði á Skjálftanum á dögunum fyrir sitt frábæra atriði í leikstjórn Írisar Drafnar Kristjánsdóttur kennara.
Eftir jólasöngstund á sal þar sem starfsmannahljómsveitin Í Grænum Fötum stýrði jólasöng sýndi listahópurinn nemendum og starfsfólki skólans siguratriðið. Um leið og atriðinu lauk birtist Palli öllum að óvörum nema nokkrum stjórnendum og starfsmönnum skólans og söng þrjú lög fyrir nemendur og starfsmenn Vallaskóla við þannig viðtökur að þakið ætlaði að rifna af húsinu!
Að þessu loknu hitti Páll Óskar listahópinn, þakkaði þeim fyrir og hrósaði fyrir þeirra stórkostlega atriði.




