Óvíst að náist að reisa myllurnar fyrir veturinn

Óvíst er hvort næst að bjóða út verk vegna áforma Landsvirkjunar að reisa tvær tilraunavindmyllur á Hafinu fyrir ofan Búrfell fyrir komandi vetur.

Að sögn Ingvars Hafsteinssonar, stöðvarstjóra Landsvirkjunar við Búrfell, er beðið eftir samþykki skipulagsyfirvalda og sagði hann að ekki skýrðist fyrr en í næstu viku hvort af þessu gæti orðið. Ef ekki frestast verkið til næsta sumars.

Landsvirkjun áformar að reisa tvær vindmyllur sem væru hluti af tilraunaverkefni. Hvor um sig eru vindmyllurnar 1 megawött en Landsvirkjun telur veðurfarsaðstæður mjög góðar á Hafinu en fyrirtækið hefur gert vindmælingar víða um land undanfarin misseri.