Óvissustigi lýst yfir vegna snjóflóðahættu

Lýst hefur verið yfir óvissustigi vegna hugsanlegrar snjóflóðahættu á Suðurlandi. Talsverður lausasnjór er nú víða á svæðinu eftir snjókomu undanfarna tvo sólarhringa.

Spáð er snjókomu og rigningu í dag sem valdið getur blautum snjóflóðum þar mestur snjór hefur safnast en ekki er talin hætta í byggð að svo stöddu.

Veðurstofan og lögreglan fylgjast með þróun mála í dag og meta hvort tilefni verður til þess að grípa til aðgerða.

Einkum er fylgst með aðstæðum á Kirkjubæjarklaustri þar sem óvenju mikið hefur snjóað í hlíðina ofan þorpsins.