Óvissustigi lýst yfir vegna óveðursins

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjóra á landinu hefur lýst yfir óvissustigi á morgun vegna veðursins sem skella mun á landsmönnum á morgun.

Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir Suðurland frá kl. 15:00 á morgun, þriðjudag, til kl. 10:00 á miðvikudagsmorgun. Gengur í norðan- og norðvestan storm eða rok, 20-28 m/s. Hvessir fyrst vestantil á svæðinu. Búast má við samgöngutruflunum og lokunum á vegum. 

Hætta er á foktjóni og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki er bent á að ganga frá lausum munum og sýna varkárni. 

Dregur úr vindi aðfaranótt miðvikudags, en bætir þá í vind undir Eyjafjöllum og má búast við 23-33 m/s á þeim slóðum þar til seint á miðvikudag.

Vegagerðin hefur gefið út töflu varðandi hugsanlegar lokanir á vegum til þess að tryggja umferðaröryggi. Lögreglan hvetur fólk til þess að vera ekki á ferðinni að óþörfu og fylgjast vel með veðurspám og einnig fylgjast með lokunum.

Lokað verður um Mosfellsheiði að Þingvöllum frá kl 8 í fyrramálið, þrátt fyrir að áætlað sé að veðrið muni birtast þar um hádegið. Lögreglan biður ferðaþjónustuaðila sérstaklega að hafa lokanir í huga og huga að því að lenda ekki í þeim aðstæðum að vera innilokaðir, til dæmis á Gullhringnum með ferðamenn, því líkur eru á því að Hellisheiðin og Þrengslin muni einnig lokast þegar líður á daginn.

Fyrri greinYfir 3.800 kærðir fyrir hraðakstur það sem af er ári
Næsta greinÍSTAK byggir brýr yfir Steinavötn og Fellsá