Óvissuþættir í búvörusamningi gagnrýndir

Sunnlenskir bændur fylltu félagsheimilið Þingborg í Flóa í síðustu viku á fundi sem boðað var til vegna gerðar nýs búvörusamnings. Til fundarins var boðað af hópi bænda sem telur ástæðu til frekari kynningar á samningnum og áhrifum hans á starfsumhverfi bænda, einkum kúabænda.

Á fundinum kom fram að í hugum bænda eru margir óvissuþættir um áhrif nýs samnings, sem boðað er að feli í sér breytingar á kvótakerfi í mjólkurframleiðslu.

Að mati Stefáns Geirssonar í Geirakoti í Flóa, var tvennt sem stóð uppúr fundinum. „Annars vegar var það umræðan um stöðuna um þessar mundir, birgðastöðuna eins og hún er og virtist tónninn í umræðu manna vera að endurskoða þurfi ákvörðun um að greiða fyrir alla mjólk, þar sem framleiðslan er langt umfram það sem búist var við,“ segir Stefán. Þar á hann við þá ákvörðun MS að greiða fyrir alla mjólk, út þetta ár, óháð greiðslumarki, sem leiðir til þess að allir bændur geti sent inn mjólk og fengið borgað fyrir hana, hvort sem þeir eru með kvóta eða ekki.

Samstaða mikilvæg
Hitt atriðið sem Stefán nefnir er hlaut talsverða umfjöllun á fundinum var samstaða bænda og að góð sátt náist um nýjan búvörusamning. Það yrði ekki til að auka trúverðugleika stéttarinnar að samningur yrði undirritaður en bændur myndu svo fella hann. Bændasamtökin hafa sent út skoðanakönnun til ákveðins úrtaks úr hópi bænda þar sem verið er að skoða viðhorf þeirra til samningsins.

Óvissa um framhaldið
Á fundinum kom fram að mikil óvissa er um hvernig málum verið háttað við mjólkurframleiðslu, þar sem í ljós hafi komið að mikil birgðasöfnun er fyrirtækinu MS mjög dýr. Rekstarhalli sé tilkominn vegna þeirrar ákvörðunar að greiða fyrir alla mjólk. Spár gerðu ráð fyrir um 138 milljón lítra framleiðslu, en bændur hafi skilað inn 146 milljónum lítra. Í stað þess að búa við ákveðinn fyrirsjáanleika í formi kvótaúthlutunar, séu menn að sjá bú spenna sig upp í framleiðslu, með ákveðnum kostnaði. Þó sé það til bóta að í samningsdrögunum sé miðað við að kvótafyrirkomulagið verði til staðar næstu fimm árin.

Fyrri greinDaisuke Tanabe með tónleika á Selfossi
Næsta greinFjóla Signý vann silfur og Eyrún Halla brons