Óviðunandi að ríkið bjóði upp á óvissu varðandi heimavistina

Fjölbrautaskóli Suðurlands. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga skorar á mennta- og barnamálaráðherra að beita sér tafarlaust fyrir því að óvissu vegna heimavistar við Fjölbrautaskóla Suðurlands verði eytt.

Þetta kemur fram í bókun á síðasta stjórnarfundi SASS þar sem málefni heimavistarinnar voru rædd. Stjórn SASS segir stöðuna alvarlega.

Samningur um núverandi húsnæði heimavistarinnar rennur út í vor og hafa engar ráðstafanir verið gerðar til að tryggja nemendum sem þess þurfa húsnæðisúrræði fyrir næsta skólaár.

„Nýtingin á heimavistinni hefur verið mjög góð og það sætir því furðu að ríkið skuli ekki ganga frá samningum um áframhaldandi rekstur hennar þegar fyrir liggur að tilboð barst frá núverandi rekstraraðila. Heimavist við skólann er lykilatriði í því að tryggja jafnrétti til náms á starfssvæði skólans og því með öllu óviðunandi að ríkið skuli bjóða ungmennum og fjölskyldum þeirra upp á þá óvissu sem nú er uppi,“ segir í bókun stjórnar SASS.

Framkvæmdastjóra SASS og stýrihópi um málefni heimavistarinnar hefur verið falið að fylgja erindinu eftir og óska eftir fundi með ráðherra.

Fyrri greinSkjálfti í Kötluöskjunni
Næsta grein„Sannarlega þörf fyrir svona skiptimarkað“