Óveður undir Eyjafjöllum – rafmagn komið á í Vík

Óveður er undir Eyjafjöllum og á Reynisfjalli þar sem er þæfingsfærð. Sandstormur er á Skeiðarársandi. Herjólfur siglir ekki fyrstu áætlunarferð dagsins.

Snjóþekja og skafrenningur er á Hellisheiði. Snjóþekja og ofankoma er einnig á Sandskeiði og í Þrengslum en hálkublettir á fáeinum köflum á Suðurlandi.

Búist er við austan stormi (meðalvindhraða yfir 20 m/s) á Suðurlandi, Suðausturlandi og Miðhálendinu fram eftir degi. Búast má við vindhviðum, allt að 40 m/s við fjöll S- og SA-landsfram eftir degi.

Rafmagnslaust var í Vík í Mýrdal og í Mýrdal í morgun vegna bilunar undir Eyjafjöllum. Samkvæmt upplýsingum frá RARIK er rafmagn komið á í Vík og unnið að því að koma rafmagni á í Mýrdalnum.

Enginn skólaakstur er í Víkurskóla þar sem veðrið er mjög slæmt í nágrenni þorpsins. Kennsla fellur þó ekki niður þar sem veðrið er þokkalegt í Vík.

Rafmagn fór af Mýrdalnum skömmu fyrir klukkan 7 í morgun en rafmagnið fór ekki af undir Eyjafjöllum þar sem búið er að leggja rafmagnsstreng þangað samkvæmt upplýsingum frá RARIK.

Fyrri greinKristjana syngur lög Páls Ísólfssonar
Næsta greinVatnslaust í Hraungerðis-hreppnum