Óvæntur fornleifafundur í Hrunamannahreppi

Fornleifafræðingar teikna þversnið af bæjarhólnum. Ljósmynd/Aðsend

Mannvirki frá landnámsöld hafa fundist í landi Grafar í Hrunamannahreppi þar sem nú standa yfir framkvæmdir við nýtt íbúðahverfi. Breyta þarf skipulagi í hverfinu vegna þessa fundar.

Halldóra Hjörleifsdóttir, oddviti Hrunamannahrepps, segir í samtali við sunnlenska.is að minjar í landi Grafar séu vel þekktar, enda lét sveitarfélagið vinna fornleifaskrá fyrir nokkrum árum. Hún segir þó að menn hafi ekki átt von á því að finna mannvirki frá fyrstu tíð Íslandsbyggðar á þessum stað.

„Þegar fornleifaskráin var gerð lágu fyrir upplýsingar um sögu svæðisins en á framkvæmdasvæðinu eru bæjarhóll, þinghóll og gamall kirkjugarður. Það kom því ekki á óvart þegar fornminjar komu í ljós við könnunarskurði sem gerðir voru fyrir skömmu. Menn áttu hins vegar ekki von á því að finna mannvirki frá fyrstu tíð, en þarna hafa fundist torfveggir með svokallaðri landnámsgjósku,“ segir Halldóra en það er Fornleifastofnun Íslands sem sér um rannsóknina fyrir Hrunamannahrepp.

Landnámslagið er mjög einkennandi gjóskulag sem finnst í jarðvegi á Suðurlandi. Tvílit askan kom frá gosi sem varð árið 871 í Bárðarbungukerfinu, þegar gossprunga opnaðist rétt vestan við Veiðivötn. Sprungan teigði sig alla leið inn í Torfajökulseldstöðina og hleypti af stað súru sprengigosi.

Grafir og bein
Í Gröf var þingstaður fyrr á öldum og útkirkja frá Skálholti. Þar var einnig kirkjugarður og um miðja 20. öldina voru átta beinagrindur grafnar upp á svæði þar sem nú stendur gamalt fjós og hlaða.

„Í rannsókninni núna hefur ekki verið komið niður á grafir og fáir gripir hafa komið í ljós hingað til. Einnig hafa fundist yngri hleðslur, frá 16.-17. öld og allt fram til 20. aldar. Rannsóknin mun halda eitthvað áfram en að henni lokinni verður gefin út skýrsla með öllum niðurstöðum vettvangsvinnu og sérfræðigreininga,“ segir Halldóra. „Varðandi breytingu á deiliskipulagi þá liggur það fyrir að það þarf að hliðra innkeyrslu inn á svæðið um einhverja metra til austurs vegna þessa fundar.“

Másstaðir fundnir?
Samkvæmt Landnámu námu bræðurnir Bröndólfur og Már Naddoddssynir Hrunamannahrepp. Bröndólfur bjó á Berghyl en Már á Másstöðum. Alla tíð síðan hefur verið búið á Berghyl en staðsetning Másstaða er ekki kunn. Hvort Másstaðir séu nú fundnir er ekki hægt að segja, en eftir því sem sunnlenska.is kemst næst voru fyrstu heimildir um búsetu í Gröf frá 10. öld en þar bjuggu Þorsteinn goði Þorkelsson lögsögumaður (f. 940) og sonur hans Bjarni spaki Þorsteinsson (f. 960). Langafi Þorsteins goða var Ingólfur Arnarson.

Framkvæmdir á svæðinu hófust í byrjun febrúar en í landi Grafar á að rísa íbúðabyggð. Gert er ráð fyrir allt að 40 íbúðum innan skipulagsins ásamt lóðum undir þjónustu. Það eru heimamenn í Gröfutækni sem sjá um framkvæmdir á svæðinu.

Litríkur torfveggur og bleik móöskulög úr eldstæði. Ljósmynd/Aðsend
Gatnagerð í Grafartúninu í febrúar síðastliðnum. sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir
Halldóra oddviti tók fyrstu skóflustunguna að nýja íbúðarhverfinu í byrjun febrúar. Ljósmynd/Magnús Hlynur Hreiðarsson
Fyrri greinArðsemi hamingjunnar á landsbyggðinni
Næsta greinLandsliðsmarkvörður Indlands til Hamars