Óvæntur nýbúi í garði bæjarstjórans

Eitursveppurinn brjóskbelgur hefur fest rætur í Hveragerði og er það í fyrsta sinn sem hann finnst utan höfuðborgarsvæðisins.

Það var Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri og nýlega orðinn sveppaáhugamaður, sem fann brjóskbelginn í garðinum sínum. Aldís var á vel heppnuðu sveppatínslunámskeiði á garðyrkjuskólanum á Reykjum um helgina og tók brjóskbelginn með sér þangað til að fá hann greindann.

Bjarni Diðrik Sigurðsson, skógfræðingur, miðlaði af þekkingu sinni á námskeiðinu og hann staðfesti að um brjóskbelg (l. Scleroderma bovista) væri að ræða. Brjóskbelgur er eini eitraði belgsveppurinn en hann var áður aðeins þekktur á höfuðborgarsvæðinu.

Aldís Hafsteinsdóttir sagði í samtali við sunnlenska.is að þó að frábært sé hversu mikið íbúum fjölgar í Hveragerði þá megi nýbúar af þessari tegund gjarnan vera einhversstaðar annarsstaðar.