Óttast áhrif Ölfusárvirkjunar á laxastofna í uppsveitum

Veiðiréttarhafar í Stóru-Laxá í Hreppum hafa þungar áhyggjur af hugmyndum um virkjun í Ölfusá við Selfoss.

Telja þeir að slík virkjun geti haft gríðarlega slæm áhrif á alla laxastofna í öllum ám ofan við virkjunina og stefnt í hættu öllu því mikla ræktunarstarfi sem veiðirétthafar hafa lagt í, í gegnum tíðina.

Á aðalfundi Stóru-Laxár­deildar Veiðifélags Árnesinga var samþykkt ályktun það sem fram kemur að í Hrunamanna- Skeiða- og Gnúpverjahreppi séu vel á annað hundrað lögbýli sem eiga veiðirétt í Stóru-Laxá, Litlu-Laxá og Hvítá sem hafa haft talsverðar tekjur af þeim hlunnindum. Því sé um mikið hagsmunamál fyrir bændur og veiðirétthafa að ræða og verður öllum virkjunaráformum, sem skerða hagsmuni þeirra, harðlega mótmælt.

Beindi fundurinn þeim óskum til bæjarstjórnar Árborgar að hlutaðeigandi aðilum (veiðiréttarhöfum) verði kynntar niðurstöður rannsókna sem standa fyrir dyrum vegna málsins, áður en til frekari ákvarðanatöku kemur varðandi virkjun í Ölfusá.

Að sögn Estherar Guðjónsdóttur formanns veiðideildarinnar hefur Elfa Dögg Þórðardóttir formaður framkvæmda- og veitunefndar Árborgar sett sig í samband við forsvarsmenn deildarinnar og boðið að þeim verði kynnt framvinda málsins.