Ótrúlega spenntar og ánægðar með nýju verslunina

Hanna Margrét og Rakel í nýju versluninni sinni við Austurveg 9 á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Fyrirtækið Tilefni opnaði í dag verslun að Austurvegi 9 á Selfossi, neðstu hæð.

Tilefni sérhæfir sér í veisluvörum, skreytingum og öðru fyrir veislur og hefur stækkað hratt síðan það var stofnað í maí 2023 af vinkonunum Hönnu Margréti Arnardóttur og Rakel Guðmundsdóttur. Fyrsta eiginlega giggið hjá þeim stöllum var fyrir svo haustið 2023 og er Tilefni nú orðin full vinna hjá þeim báðum.

„Þetta var náttúrulega upprunaleg hugmyndin, að stofna verslun en við byrjuðum með skreytingarþjónustuna sem sló strax í gegn. Við byrjuðum í bílskúrnum og svo opnuðum við netverslunina í mars. Þá fórum við að taka inn svo mikið magn af vörum og bílskúrarnir hjá okkur báðum voru alveg að springa“ segir Hanna og hlær.

Rakel segir að tilfinningin að vera búin að opna verslun sé fyrst og fremst spenna. „Við erum ótrúlega spenntar og ánægðar að vera komnar á þann stað að vera búnar að opna verslun. Gott að geta loksins mætt í vinnuna og sett línu á milli heimilis og vinnu. Okkur finnst mjög gaman að mæta í vinnuna því loksins erum við með allt á sama stað og erum mjög spenntar fyrir framhaldinu.“

Sáu fljótt þörfina fyrir verslun
„Það var rosalega mikið af pöntunum að koma frá Sunnlendingum þannig að við fundum alveg að markaðurinn var að bjóða upp á það að opna verslun. Við finnum fyrir spennu hjá fólki að koma og skoða,“ bætir Rakel við.

Hanna segir að nú geti þær boðið upp á mun betri aðstöðu. „Í bílskúrnum var þetta allt í kössum og við vissum kannski ekki alltaf hvað var nákvæmlega til. Núna erum við með miklu betri yfirsýn yfir lagerinn. Við sáum það bara þegar við opnuðum verslunina hvað við ættum mikið af dóti,“ segir Hanna og þær hlæja báðar.

Þær stöllur segja að stefnan sé að hafa opið nokkra daga í viku. „Við ætlum að byrja á þessum fyrstu fimm dögum sem eru fyrir áramótin og svo ætlum við að sjá til með framhaldið. Við erum náttúrulega líka að skreyta og erum ennþá bara tvær.“

Blöðrubogi sem Tilefni gerði fyrir Kringluna núna fyrir jólin. Ljósmynd/Aðsend

Alltaf jafn góðar vinkonur
Sem fyrr segir er Tilefni orðin full vinna hjá bæði Hönnu og Rakel. „Við áttum engan veginn von á því að fyrirtækið myndi vaxa svona hratt. Við héldum að þetta yrði bara svona hobbý hjá okkur. Við vorum báðar að vinna annars staðar en það var fljótt að breytast.“

Aðspurðar hvort þær séu alltaf sammála, til dæmis varðandi skreytingar segja þær að þær verði stundum ósammála en séu alltaf tilbúnar að hlusta á sjónarmið hinnar. „Við erum frekar gott teymi. Við erum óhræddar við að segja okkar skoðun og komust alltaf að niðurstöðu sem við erum báðar sáttar við. Við erum samt alltaf jafn góðar vinkonur, aldrei neitt vesen enda erum við þrjátíu plús,“ segir Rakel og þær hlæja báðar.

Tilefnis-minions
Þær stöllur segja að þær fái góða hjálp frá fjölskyldum og vinum ef svo ber undir og eru þær mikið þakklátar fyrir.

„Albert kærastinn minn er með verkstæði í Reykjavík og afhendir mjög mikið af vörum fyrir okkur í bænum. Þannig náum við að þjónusta Reykjavík líka. Hann tekur oft með sér fullan bíl af vörum og afhendir fyrir okkur,“ segir Rakel.

Hanna bætir því við að þær séu einnig komnar með Tilefnis-minions á Facebook þar sem þær óska eftir hjálp ef þær þurfa en það eru vinkonur þeirra sem eru tilbúnar að hjálpa.

Mikið úrval er af allskonar skrauti fyrir áramótin í verslun Tilefnis. Í versluninni má finna fjölbreytt úrval skreytinga fyrir öll tilefni – ekki bara áramótin. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Stundum bókaðar með árs fyrirvara
Hanna og Rakel hafa séð um að skreyta fyrir veislur út um allt land og er mikil ásókn í skreytingarþjónustu þeirra. „Ef fólk vill fá okkur til að skreyta fyrir sig þá er náttúrulega alltaf best að panta með ágætum fyrirvara. Fermingarnar eru að verða ágætlega mikið bókaðar hjá okkur og einnig brúðkaupin í sumar. Þannig í raun því fyrr því betra,“ segir Rakal og Hanna bætir því við að þær séu oft bókaðar með árs fyrirvara, sérstaklega ef þær eiga að skreyta fyrir árshátíðir.

„Ef fólk er að fara alla leið í skreytingunum þá þurfum við alveg góðan fyrirvara, sérstaklega ef það er vinsæl dagsetning. Annars erum við oft frekar sveiganlegar og reynum að gera allt fyrir alla,“ segir Hanna.

„Við reynum að passa að taka ekki of marga viðburði sama dag því að við viljum veita 110% þjónustu og einbeita okkur vel að hverju og einu verkefni,“ segir Rakel.

„Við vorum rosa mikið fyrst að gera bara allt saman, enda er það miklu skemmtilegra, en við erum farin að skipta verkefnunum meira með okkur,“ segir Hanna.

Partýboxin rjúka út
Hjá Tilefni er hægt að fá allt til að skapa réttu stemninguna í áramótapartýinu og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Þegar blaðamann sunnlenska.is bar að garði var stöðugur straumur af fólki í verslunina og augljóslega mikil þörf fyrir verslun eins og þessa á Selfossi.

„Partý-áramótaboxin rjúka út, við erum smá stressaðar að vera ekki með nóg. Þetta eru í raun box með öllu þessu helsta, blöðrum, bannerum, höttum, gleraugum, ýlum. Öllu þessu klassíska.“

Partýboxin rjúka út. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

„Eins eru 2025 tölustafirnir mjög vinsælir, diskókúlurnar og glow stafirnir. Fólk getur keypt helíum blöðrur samdægurs hjá okkur en við erum með opið til klukkan fjögur á gamlárs. Fólk getur líka verið búið að greiða fyrir blöðurnar og sótt á gamlárs því að við erum bara með takmarkað magn af sumum litum. Endilega kíkið við í versluninni okkar, við hlökkum til að sjá ykkur, “ segja þær stöllur að lokum.

 

Fyrri greinÓmar Ingi handknattleikskarl ársins 2024
Næsta grein„Þetta er algerlega galið“