„Ótrúlega spennandi tímar framundan“

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Rakel Theodórsdóttir, markaðs-og gæðastjóri Friðheima, Janis Schwenke veitinga-og móttökustjóri Friðheima, Helena Hermundardóttir og Knútur Ármanna eigendur Friðheima og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Friðheimar í Bláskógabyggð fengu Menntasprotann afhentan í dag en viðurkenningin er hluti af árlegum menntaverðlaunum atvinnulífsins.

Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum sem skara fram úr á sviði fræðslu- og menntamála. Höldur á Akureyri var valið Menntafyrirtæki ársins og Friðheimar fengu Menntasprotann.

Knútur Rafn Ármann, eigandi Friðheima, tók við verðlaunum og sagði við það tilefni að það væri bæði mikill heiður og ánægja að taka við þeim. Hann sagði tækifærin í ferðaþjónustu vera mikil út um allt land.

Gefst tími til að anda
„Að flétta saman landbúnað og ferðaþjónustu sem margir hafa áhuga á en það er hægt að gera það á svo margvíslega vegu. Það eru ótrúlega spennandi tímar framundan. Það er að hægja á fjölgun ferðamanna og þá gefst tími til að anda. Byggja innviði enn frekar upp, bæta þekkingu, kennslu og fræðslu í ferðaþjónustu. Eftir fáein ár höfum við aukið gæði innan greinarinnar enn frekar og verðum með áhugaverðari stað til að heimsækja, bæði fyrir Íslendinga og erlenda ferðamenn,“ sagði Knútur.

Markvisst unnið að menntun starfsmanna
Hjá Friðheimum hefur verið unnið markvisst að því að efla fræðslu og menntun starfsmanna. Fræðslustarfið er vel skipulagt. Í samstarfi við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi – var búin til tveggja ára áætlun þar sem markmiðin voru að bæta gæði þjónustu, auka framlegð og ánægju starfsmanna.

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, afhenti verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu. Meðal þeirra sem ávörpuðu gesti var forseti Íslands sem óskaði verðlaunahöfunum innilega til hamingju.

Fyrri greinSelfoss fær bandarískan varnarmann
Næsta greinSuðurlandsvegi lokað vegna umferðarslyss – Búið að opna